Spurt og svarað -> Diane Gossen svarar algengustu spurningum kennara á námskeiðum.

1. hluti Nokkur grundvallaratriði Uppbyggingar 


1. Hvað felst í uppeldi til ábyrgðar – uppbyggingu sjálfsaga? 

Uppeldi til ábyrgðar – Uppbygging sjálfsaga er ferli sem kennir ungu fólki sjálfsaga og sjálfstjórn. Það er byggt á þeirri meginhugmynd að fólk sé fætt með sjálfstæðan vilja – að áhuginn komi að innan. Við hegðum okkur til að líkjast þeirri mynd sem við höfum varðveitt af því hvernig manneskjur við viljum vera í óskaveröld okkar. Við höldum kannski að hegðun okkar stjórnist af löngun til að eignast hluti sem við girnumst eða jafnvel til að fá hól frá öðrum. En þessi markmið eru alltaf tengd því hvernig við sjáum okkur sjálf í samanburði við fólkið sem við umgöngumst og þá hluti sem við girnumst. Við, fullorðna fólkið, erum ekki vön því að tala við unglinga um hvernig þeir sjá sjálfa sig – hverjum þeir vilja líkjast – því við höfum venjulega mestan áhuga á að breyta hegðun þeirra, láta þá samþykkja sjónarmið okkar, frekar en að gefa þeim kost á sjálfsskoðun. Uppbygging sjálfsaga beinir sjónum fyrst að persónunni. Síðan biðjum við persónuna að líta í eigin barm og meta hvaða áhrif hegðun hennar hefur á aðra. 

2. Hverjir eru helstu þættir í námsefninu um uppbyggingu sjálfsaga? 

a) Kennarar líta í eigin barm og kanna hvaða verðmæti eru þeim mikilvægust í samskiptum við aðra. Þetta eru lífsgildin eða dygðirnar. 

b) Kennarar og nemendur finna út hvaða lífsgildi fjölskyldur þeirra hafa og hvaða lífsgildi séu mikilvægust í skólastarfinu. 

c) Reglur eru endurskoðaðar og endurmetnar, þeim er breytt í jákvæðar fullyrðingar og þær tengdar lífsgildunum. 

d) Kennarar kenna nemendum fimm stöður stjórnunar og þrenns konar tilgang hegðunar: 

- Að forðast óþægindi. 

- Að fá umbun frá öðrum. 

- Vegna eigin sjálfsvirðingar. 

e) Nemendur læra að þekkja fimm grundvallarþarfir sínar. 

f) Nemendur læra á sinn eigin lífsvagn.* 

g) Nemendur, hver um sig, lýsa með orðum á blaði eða teikna mynd af fyrirmyndarpersónu sinni: „Manneskjan sem ég vil verða.“ 

h) Kennarar læra „Já ef“ stjórnunaraðferðina og „Skiptir það örugglega máli.“ 

i) Kennarar og stjórnendur eru nemendum fyrirmyndir við sjálfsleiðréttingu/sjálfsuppbyggingu, að laga það sem aflaga fer í samskiptum. 

3. Hvað felst í hugtakinu sjálfsuppbygging (self restitution)? 

Sjálfsuppbygging er ferli til að hjálpa barninu til að standa í fæturna á nýjan leik, að það reisi sig sjálft við eftir mistök sem valda tilfinningu um niðurlægingu eða tilfinningalegt skipbrot. Vísað er til þess að barnið þekki tilfinningu um jákvætt sjálfsmat og vilji komast þangað á ný, fá hughreystingu. Sama gildir um hóp. Uppbygging barns er eitthvað sem fullorðnir geta ekki gert fyrir barnið. Allt sem við getum gert er að skapa skilyrði til að barnið geti endurskoðað afstöðu sína og byggt sig sjálft upp. 

4. Hvaða skilyrði er átt við að þurfi að skapa? 

Sjálfsuppbygging fer af stað þegar barnið hefur verið beðið að hugsa um þau lífsgildi sem það treystir á og tengjast mistökunum sem um ræðir. Barnið fær tækifæri til að rifja upp að það hefur ákveðið með sjálfu sér, sett sér markmið, að verða ákveðin manngerð. Þegar barnið missir marks í þeirri viðleitni sinni segjum við: „Þú þarft ekki að vera fullkominn. Hugsaðu um það hvernig manneskja þú vilt verða. Hvernig viltu bregðast við svo að það sem þú gerir endurspegli lífsgildin sem þú trúir á og efli þig til dáða?“ 

5. Tekur skólinn við því hlutverki heimilanna að skapa tiltrú á ákveðin lífsgildi? 

Nei. Skólinn byggir á þeim lífsgildum sem heimilin trúa á með því að spyrja börnin um þær reglur sem þau hafa heima og síðan að athuga með þeim af hverju reglurnar eru mikilvægar. Þegar þau svara „hvers vegna“, eru þau að hugsa um lífsgildin.
Til dæmis gætu reglur hljóðað:
„Ekki kveikja eld, - klifra á þakinu eða leika þér með plastpoka.“ Þegar spurt er af hverju við höfum þessar reglur svara þau: „Svo enginn meiði sig.“ Við getum þá umorðað setninguna án neitunar og sagt:

„Svo við séum örugg.“ Setningin um lífsgildi fjölskyldunnar myndi þá hljóða þannig: „Í minni fjölskyldu hjálpast allir að við að vera öruggir og óttalausir.“ 

6. Hvernig breytist hlutverk skólastjórans þegar uppbyggingu sjálfsaga hefur verið komið á í skólanum?

 Skólastjórinn verður að fara fremstur í flokki þegar skólasáttmálinn er gerður. Skólastjórinn getur líka verið fyrirmynd annarra og sagt: „Það er allt í lagi þó manni verði eitthvað á; við lærum á því að gera mistök.“ Þegar kennarar fara í auknum mæli að beita sér í persónulegri ráðgjöf til nemenda getur hlutverk skólastjórans breyst. Það er vegna þess að kennari getur hafa kennt nemanda að byggja sig upp og boðið honum upp á tækifæri til að bæta fyrir mistök sín og samt segir nemandinn: „Þetta er heimskulegt“ eða „Þú getur ekki látið mig gera þetta!“ Í þessu tilviki verður það verk skólastjórans að rifja upp grundvallarreglur skólans: „Í skólanum okkar eru nokkrir hlutir algjörlega óásættanlegir.“ 

7. Hvað áttu við með að setja skýr mörk um grundvallarreglu (bottom line)? 

Grundvallarreglur eru fáar. Þar er talað um hegðun sem er algjörlega óásættanleg og eru bæði foreldrar og kennarar sammála um það. Venjulega er þetta hegðun sem truflar nám, eða ógnar öryggi. Algeng atriði á listanum eru líkamsmeiðingar, fíkniefni, vopn og hrein og bein ögrun við stöðu hins fullorðna. Slík hegðun á að kosta að nemandanum sé vikið brott af svæðinu, þ.e. matstofunni, skólastofunni eða leikvellinum. Víkja þarf nemandanum á brott áður en hægt er að gefa honum ráð. Hve lengi brottvikningin varir ræðst af því hve alvarlegt brotið er. Brottvikningin er skilgreind sem viðurlög við brotinu. Þetta er ekki það sama og uppbygging sjálfsaga. Uppbygging sjálfsaga getur komið síðar, en brot á grundvallarreglu er nógu alvarlegt til að kosta tafarlausa brottvikningu úr hópi. Ef barn neitar að yfirgefa skólastofuna verður skólinn að hafa áætlun um viðbrögð. 

8. Hver á að semja grundvallarreglurnar? 

Grundvallarreglurnar eru á ábyrgð starfsfólks skólans, foreldra hverfisins og stundum nemenda - sjálfra. Þegar reglurnar eru tilbúnar verður að fylgja þeim eftir. Sé það ekki gert er það hlutverk skólastjórnarinnar að ræða við starfsfólkið og fá það til að halda fast við reglurnar. Það er líka á ábyrgð skólastjóra að koma reglunum rækilega til skila til nemenda og styðja kennara þegar á þarf að halda. 

9. Hvernig veldur uppbygging sjálfsaga uppstokkun á kerfinu? 

Til að breyta kerfi þarf hópur fólks að skapa sameiginlega hugsýn og gera með sér samkomulag um hvernig það vill leysa úr þeim málum sem upp koma. Ákvarðanir í skólanum eru teknar sameiginlega eftir umræður fremur en við atkvæðagreiðslu. Kerfisbreytingin byggist á félagssamningum eða skólasáttmálanum (social contract). 

10. Hvort er mikilvægara að breyta barninu eða kerfinu? 

Ég vil ekki setja dæmið þannig upp. Sjálfstjórnarkenningin* (Control theory / Choice theory / Perceptual control theory) hefur kennt okkur að aðeins er hægt að stjórna sjálfum sér og ekki öðrum. Ég trúi því að við þurfum að kenna fólki hvernig á að gera það og mæta samt eigin þörfum. Kerfisbreyting byggist á því að fólk hafi fyrst breytt sjálfu sér - sínum eigin viðhorfum til hegðunar og stjórnunar. Þegar við lærum Sjálfstjórnarkenninguna og skiljum að við lítum málin jafn ólíkum augum og við erum mörg, að við höfum ólíka mynd af þeim veruleika sem við hrærumst í, þá getum við sett myndirnar saman og breytt skólanum. 

11. Hvað er félagssamningur / skólasáttmáli (social contract)? 

Félagssamningurinn er listi yfir setningar um lífsgildi sem hópurinn hefur trú á að séu mikilvægastar fyrir heilladrjúgt starf. Setningarnar eru frá einstaklingunum í hópnum. Samningurinn segir til um hvernig meðlimir hópsins hafa samþykkt að hegða sér hver gagnvart öðrum. Um er að ræða þrenns konar félagssamninga: - Kennararnir gera samning um félagsleg samskipti sín. - Hver bekkur gerir samning með umsjónarkennara. - Skólinn sem heild hefur samning sem allir eru sammála um. 

12. Hvernig lítur félagssamningur út? 

Hér á eftir koma nokkrar fullyrðingar um þau lífsgildi sem maður trúir á og þannig fram settar að auðvelt er að muna. Dæmi um tillögur til félagssamnings eru: „Allt sé gott á okkar jörð elskum lága og háa. Virðum okkar vænu hjörð og verndum barnið smáa.“ (P.G. Foldaskóla 2000) „Þá virðing og kærleikur varða leið verður lífsgatan okkur greið.“ (E.Þ. Foldaskóla 2000) En það þurfa ekki að vera skáld í skólanum: „Í skólanum berum við virðingu fyrir sjálfum okkur, öðru fólki og öllu í kring. Þegar við erum saman, gerum við okkar besta.“ 

Slagorð: 
Virðing; Kjarkur; Kærleikur (Skóli í Kanada) „Við viljum bera virðingu fyrir sjálfum okkur öðrum og umhverfinu, vinna í sátt og vera samstilltur hópur.“ (Álftanesskóli 2004) Slagorðin gætu verið: Virðing, Sátt og Samstilling 

13. Hve gömul þurfa börn að vera til að geta hugsað um þau lífsgildi sem hafa tiltrú? 

Það virðist ekki vera hægt að gera þetta með börnum yngri en fimm ára. Við vitum að fimm ára börn geta gert þetta. Fjögurra ára börn eru of hlutbundin í hugsun. Þegar við spyrjum þau spurninga eins og: „Myndir þú vilja að þetta kæmi fyrir þig?“ svara þau: „En mig langaði að setjast í stólinn.“ Flest fimm ára börn geta þetta því við leitum trúar á lífsgildi í leikskólanum. Verið getur að sum barnanna geti bara verið að samþykkja það sem maður segir án þess að skilja. Kennari í öðrum bekk, Mark Roudane, segir að hann hafi tekið eftir því að í annað og þriðja árið í röð sem rætt hefur verið um trú á lífsgildi, hafi börnin verið farin að fá næmari skilning. 

14. Hvernig getum við hjálpað litlum börnum að skilja umræðuna um lífsgildin? 

Ég reyndi að hjálpa barnabarni mínu að lyfta huganum með því að fara frá reglum til trúar á lífsgildi. Hann var sendur upp úr sundlauginni fyrir að kaffæra yngri bróður sinn. Hann varð að sitja á hliðarbekk í tíu mínútur í refsingarskyni. Ég spurði hann um sundlaugarreglurnar og hann nefndi nokkrar. Ég sagði: „Mitch, af hverju hefur þú þessar reglur?“ Hann sagði: „Svo enginn meiði sig.“ Ég umorðaði setninguna til að koma að í huga hans trú á lífsgildi. „Svo allir séu öruggir.“ Ég spurði hann: „Trúir þú því að það sé mikilvægt?“ Hann jánkaði því. Ég sagði: „Fyrst svo er ætla ég að - spyrja þig hér eftir, ef ég sé eitthvað athugavert í lauginni: Hvernig viljum við hafa öryggismálin í lauginni í fjölskyldunni og þú getur svarað fyrir sjálfan þig.“ 

15. Þegar ég reyndi að vinna með trú bekkjarins á lífsgildi, lauk hann við verkefnið á tíu mínútum. Ég veit ekki hvort þau höfðu gert þetta áður, en mér fannst þau væru bara að segja mér það sem mig langaði að heyra. Í svona tilfelli getur þurft að vera með ólíkindalæti. Stríddu þeim svolítið. Spurðu: „Af hverju ættir þú að virða aðra, ef þeir virða þig ekki?“ eða „Af hverju ætti hún að hafa fimm penna en við engan? Af hverju getum við ekki bara tekið þá? Við getum skilað þeim aftur.“ Gerið þetta skemmtilegt. Upphugsið sérstök atvik í skólanum til að halda samræðum gangandi. Þetta hefur lítið gildi nema það sé líflegt. 

16. Hvernig ætti að fá foreldrana með? 

Foreldrarnir eru félagar okkar í því að móta lífsgildin. Norman Wall, skólastjóri í Juab skólanum í Utah, ráðleggur að nota foreldrafundi og hafa foreldra í litlum hópum við að skiptast á hugmyndum um það hvað skiptir mestu í fjölskyldum - hvaða lífsgildi eru efst í huga fólks. Eftir einn slíkan fund báðu foreldrarnir skólastjórann að safna saman þeim hugmyndum sem fram höfðu komið því þeir vildu ræða heima við börn sín um lífsgildi fjölskyldunnar. Hvenær sem ég kem í skólahverfi með námskeið fyrir kennara, býð ég einnig fram kvöld fyrir foreldra til að segja frá uppbyggingu sjálfsaga. Ég hvet skólana líka til að bjóða fulltrúum foreldra með á námskeið starfsfólks um aga. Ef við fáum foreldrana ekki með okkur, geta þeir farið að halda að það sé merki um veikleika að skipta yfir frá umbun og refsingu í uppbyggingu sjálfsaga. Þetta er vegna þess að þeir vænta þess að börnin komi bæld og beygð út úr tíma um agamál. Við þurfum að kenna þeim að markmiðið með sjálfsaga sé að kenna barni að meta hegðun sína sjálft, án ótta. Annað markmið uppbyggingar sjálfsaga er að skapa skilyrði fyrir æskufólk til að hugsa um hvernig manneskjur það vill verða, þegar því verður eitthvað á. Þetta leiðir síðan til þess að það vill gera eitthvað til að laga það sem aflaga hefur farið. 

17. Kennirðu nokkurn tímann nemendum uppbyggingu? - Ef svo er, hvernig ferðu að því? 

Já. Því fleira fólk í skólanum sem þekkir til uppbyggingar því betur virkar hún. Það fyrsta sem ég kenni eru fimm stöður stjórnunar: Að refsa; Að vekja sektarkennd; Að vingast; Að sýna festu (standa fast á reglu); Að byggja upp. Síðan spyr ég nemendur: „Hvernig viltu að komið sé fram við þig?“ Þetta kemur venjulega góðum samræðum af stað. Síðan bið ég þau að vinna í litlum hópum og leika aðstæður þar sem vinir mætast og setja sig inn í allar fimm stjórnstöðurnar. Síðan kenni ég þeim hvernig hægt er að nota uppbyggingarþríhornið. 

18. Hvað er uppbyggingarþríhorn? 

Uppbyggingarþríhornið getur verið uppi á vegg sem þríhyrningur úr pappaspjaldi sem hefur vasa á hverri hlið. Í hverjum vasa er listi yfir setningar og spurningar sem nemandi getur notað til sjálfsmats og sjálfsuppbyggingar. Að fara í gegnum þríhornið er eins og að vera sinn eigin ráðgjafi. Til dæmis gæti kort á fyrstu hlið haft setninguna: „Það er allt í lagi að gera mistök“, eða „Þú þarft ekki að vera fullkominn.“ Fyrsta kortið á annarri hlið gæti verið með spurninguna: „Hefðir þú getað gert enn verri mistök en þú gerðir?“ eða „Hvað var það sem þú þurftir?“ Kort á þriðju hlið gæti verið: „Varstu hugrökk og umhyggjusöm?“ eða „Hvaða lífsgildi bekkjarins okkar tengist svona aðstöðu eins og þú ert í núna?“ 2. hluti Breytt heimspeki 

19. Er það ekki bara gott að börnin verði hrædd þegar þau eru að gera eitthvað af sér? 

Við reynum að skapa skilyrði fyrir samræður sem hvorki eru ógnvekjandi né valda sektarkennd. Við gerum þetta vegna þess að við vitum að þegar fólk er hrætt getur það ekki hugsað. Uppbyggingar aðferðin þarf að hafa börnin og unglingana hugsandi fremur en í viðbragðsstöðu. Við viljum að þau hugsi um: 

(1) hver þau eru, 

(2) á hvaða lífsgildi þau trúa og 

(3) um það hvernig hegðun þeirra hefur áhrif á aðra ekki síður en á þau sjálf. 

Við viljum að þau hugsi um þarfir sínar og okkar - og um það hvernig báðir aðilar geta fengið það sem þeir þarfnast. 

20. Börn verða vond ef fullorðnir aga þau ekki. - Hvernig getur þú haldið öðru fram? 

Þessi skoðun ræðst af heimspeki þinni. Ástæðan fyrir því að við erum nú að takast á um spurninguna um aga er sú að hún krefst þess að við skoðum grundvallarspurninguna um lífsgildi. Umræðan um ytri og innri stýringu er sú sama og spurningin um stjórnunarkenningar sem byggist á áreiti/viðbragði. Hvaða grundvallarkenningar um þetta atriði aðhyllumst við? Trúum við því að aðrir stjórni okkur eða trúum við því að við stjórnum okkur sjálf? Getur einhver fengið okkur til að trúa því, sem við vitum innst inni að er ekki satt? Sumt fólk trúir því að börn séu í eðli sínu ill. Aðrir trúa því að við séum fædd góð. Uppbyggingarhugmyndin tekur þá afstöðu að fólk sé fætt með innbyggða tilhneigingu til gæsku. Við hinir fullorðnu berum ábyrgð á því að leggja rækt við þennan hæfileika því hann er í samkeppni við aðrar hvatir til að lifa af. Börn sem upplifa öryggisleysi geta t.d. ekki haft samúð með öðrum. 

21. Ef barn fær aðeins neikvæðar og niðrandi athugasemdir frá fullorðnum og við biðjum það að leggja dóm á sjálft sig segir það þá ekki að það sé slæmt barn? 

Þetta er spurning sem ég get ekki svarað. Ef barni finnst það mislukkað af því að því hefur verið sagt að svo sé, er líklegt að það svari: „Ég er heimskur“ eða „Ég er vondur“ ef það er beðið að - leggja dóm á sjálft sig. Mín spurning er – og henni er ósvarað: „Þurfum við að sá fræjum jákvæðni til að eyða allri þeirri neikvæðni sem barnið hefur innbyrt?“ Ég man að ég hef sagt við nemendur sem farið hafa mjög halloka: „Þú ert ekki einskis verður. Þú getur lært!“ Ég var að reyna að vinna gegn öllu því neikvæða sem þeir höfðu innbyrt. Hvað heldur þú? 

22. Svo hvert er svarið um að vera jákvæður og hæla barni? 

Mér finnst þetta ekki rétta leiðin. Best væri að skapa öruggt umhverfi þar sem barn getur gert tilraunir og lært um sig, fyrir sjálft sig. Að barnið sjái að það getur sigrast á verkefni, er miklu mikilvægara en að ég segi við það: „Þú getur gert þetta.“ Ég gleymi aldrei Jackie, 15 ára nemanda mínum. Hann var nýbúinn að ljúka áttunda stigi í lestri. Hann sagði: „Láttu mig hafa annað stig.“ Ég sagði við hann: „Þú getur lesið meira en það.“ Hann sagði: „Láttu mig hafa annað stig.“ Það var erfitt fyrir mig að samþykkja það sem hann bað um. Hann settist niður og las spjaldanna á milli, svo brosti hann og sagði: „Nú veit ég að ég get lesið!“ Hann þurfti að sýna sér það sjálfur. 

23. Hvernig er uppbygging (restitution) frábrugðin viðurlögum (logical consequences)? 

Viðurlög eru lögð á sem ytri stýring. Uppbygging er sjálfvalin innri stýring. Uppbygging getur stutt sig við náttúrulegar afleiðingar (natural consequences) til að aðstoða barn við sjálfsmat, því ekki er hægt að meta sig í tómarúmi. Maður verður að meta sig með því að fá að vita hvaða áhrif maður hefur á aðra með hegðun sinni. Samt sem áður er sjónum ekki beint að því í uppbyggingunni hvað gerist ef ég geri ekki eins og ætlast er til, heldur er áherslan frekar á það hver ég verð ef ég játa mistök mín og leiðrétti þau. 

24. Hve langan tíma tekur að koma uppbyggingu sjálfsaga á? 

Það er enginn ákveðinn tími tilgreindur. Líklega tekur það eitt og hálft ár að koma breytingunni á. Nemendur munu verða búnir að ná sjálfsstjórn að mestu leyti eftir þrjú ár. 

25. Er uppbyggingin (restitution) sú sama og í réttarkerfinu? 

Nei. Þar er uppbygging notuð sem viðurlög eða endurgjald. Sagt er: „Farðu í uppbyggingu eða þú verður lokaður inni.“ Fólki er þar bent á að borga til að forðast vanlíðan. Þar er ekki gert út á að endurreisa sjálfið - að líkjast þeim manni sem maður vill vera.*(Hér er verið að spyrja um samlíkingu við samfélagsþjónustu brotamanna) 

26. Faðir minn lét mig finna fyrir beltinu og ég er betri maður fyrir vikið. Vissir þú að foreldrar þínir elskuðu þig þrátt fyrir að þetta hafi gerst? 

Lærðir þú eitthvað af þeim sem hafa hjálpað þér í lífinu? Ef svarið er já, þá hefur þú haft jákvæða sjálfsmynd (success - identity) sem barn. Refsing virkar á fólk sem er sigursælt í lífinu (successful), þú varst það. Refsing virkar ekki á fólk sem finnst það misheppnað, eða fólk sem er mjög óhlýðið og uppreisnargjarnt. Það hefur engu að tapa. Refsing gerir illt verra, annað hvort verður það árásargjarnara eða meira inn í sig. 

27. Hver er munurinn á reglum og lífsgildum (rules and beliefs)? 

Lífsgildin svara hvers vegna. Reglur svara hvernig er. Þegar börn spyrja: „Af hverju höfum við - þessa reglu?“ eru þau að spyrja um lífsgildið að baki reglunni. Of oft neitum við þeim um svar með því að segja: „Regla er regla“ eða „Af því ég segi það“. Við þetta missum við af tækifæri til að svara spurningunni fyrir okkur sjálf, meta okkur sjálf og athuga hvort reglurnar okkar eru tengdar við lífsgildi. Ef við getum ekki svarað spurningunni „hvers vegna?“ þegar barn spyr okkur um reglu, gæti verið að við þyrftum að losa okkur við hana. Reglan gæti verið úrelt. Reglur lýsa hegðun en lífsgildi markmiðum. 

28. Hvernig er uppbygging sjálfsaga í samanburði við heilunarhring frumbyggja Ameríku (healing circle)? 

Tilgangurinn er sá sami: Að lækna en ekki að skamma. Þegar þolandi (fórnarlamb) segir frá því hvernig það hefur verið meitt, á sá sem valdið hefur skaðanum að finna fyrir mikilli eftirsjá. Þeir - eldri hjálpa honum þá að gera eitthvað til að hjálpa þeim sem er meiddur. Lífsgildin (the belief ) eru þessi: „Ef ég vanvirði þig, vanvirði ég sjálfan mig um leið.“ Þessi hugsun leiðir til þess að viðkomandi vill bæta fyrir það sem hann gerði. 

29. Af hverju segir þú að uppbygging sé skapandi list? 

Uppbyggingaðferðin er bæði einföld og flókin. Hún er gagnvirkt ferli. Hún er skapandi list. Það er tiltölulega einfalt að læra að nota uppbyggingu (restitution), en vandinn er sá að hætta að hugsa eins og maður gerði áður, eins og maður gerir í „áreitis-viðbragðs“ ham (stimulus-response). Það er ómögulegt að vera samtímis í einstefnuhugsunarhætti umbunarkerfis og gagnvirkum hætti uppbyggingar. Það er ekki hægt að vera bæði að refsa og byggja upp. Ef maður reynir að flakka á milli líður ekki á löngu þar til refsigleðin skemmir það traust milli aðila sem nauðsynlegt er til að uppbyggingaraðferðin sjálfsaga virki: Þ.e. að sá sem brýtur af sér rannsaki og skoði sinn eigin hug á æðri vitundarstigum og meti sig sjálfur og tileinki sér þannig skapandi hugsun um eigin framkomu. Þó það sé hægt að vera skapandi ásamt því að vera í varnarstöðu - á lægri stigum vitundar, þar sem sálarkvölin býr um sig, er hætt við að útkoman verði siðlaus og skaði mann sjálfan jafnt sem aðra. Þegar maður fer að skapa og hefur jafnframt þá yfirsýn að hugurinn vinnur á sínum æðri vitundarstigum, verður útkoman önnur. Þá sér maður fyrir sér jákvæða útkomu, þar sem allir aðilar sigra jafnvel þó það sýnist ómögulegt til að byrja með. Þegar gengið er út frá því að einn þátturinn í útkomunni verði sá að báðir eða allir sigri kemur það í veg fyrir niðurstöðu sem veldur einhverjum skaða. Það er næstum því ómögulegt að útskýra uppbyggingu fyrir þeim sem hafa lokast inni í einstefnuhugsun umbunarkerfis og atferlissálarfræði. Þeir spyrja sífellt: „Hvað er það sem kemur í veg fyrir að börnin hagi sér illa?“ Eða: „Hver er refsingin?“ Þeir telja að annars gerist ekki neitt hjá þeim, ef þau leiðrétta bara það sem þau hafa gert vitlaust. Þeir skilja ekki af hverju ungmenni haga sér vel án þess að einhver fylgist með þeim - ef hvorki ytri umbun né refsing sé yfirvofandi. 

30. Hvernig er hægt að læra um uppbyggingu sjálfsaga? 

Lesa bókina
Restitution - Restructuring School Discipline Restitution - Facilitator’s Guide, Being the Person You Want to Be og bækurnar Beyond Discipline og Punished by Rewards eftir Alfie Kohn. Bæklingur eftir Jean Suffield sem heitir The Philosophers’ Circle fjallar um þá síðasttöldu. Haldin eru námskeið í uppbyggingu sem heita: Restitution I (2ja daga námskeið), Restitution II (2ja daga námskeið), Restitution III (1 dags námskeið). Síðan er hægt að fá viðbótarnámskeið sem - heita: Restitution in Elementary Schools; Restitution in High Schools; Restitution in Middle School; Restitution in Special Education; Restitution with Violent Youth. 

31. Geturðu nefnt helstu gildrur sem hægt er að lenda í? 

Ein gildran er að reyna uppbyggingu án þess að hafa áður haft rækilegar umræður um lífsgildi. Önnur gildran er að láta nemendur kjósa uppbyggingu sem í rauninni er viðurlög eða refsing, t.d. ef nemandi velur að refsa sjálfum sér með því að segja: „Ég skal sleppa því að fara í mat.“ Þriðja gildran að ganga í er þegar kennari leggur hart að nemanda að fara í uppbyggingu. Ef við gerum það öxlum við ábyrgð nemandans. 

32. Eru einhver tengsl á milli þess að nota uppbyggingu og námsárangurs í skóla? 

Við erum ekki sérstaklega að hugsa þannig, en í rannsókn í Rockford IL, komust menn að því að hópar í 7. bekk sem höfðu notað uppbyggingu fengu 20% hærri einkunnir í bóklegum greinum. Þegar maður hugsar um það er það mjög eðlilegt að ef kennarar þurfa ekki að eyða tíma í að aga nemendur í bekknum sé meiri tími notaður í nám. 

33. Hvað segja kennarar sem nota uppbyggingu? 

Spurningar voru lagðar fyrir 300 kennara. Allir sögðu að þeim fyndist að uppbygging hjálpaði til við að þroska sjálfsstjórn og sjálfsaga; 94% svöruðu að þeim fyndist uppbygging gefa nemendum, kennurum og foreldrum aukið sjálfstraust og sigurvissu. 91% sögðust nota hugmynda- og kennslufræði uppbyggingar kerfisbundið. Í skoðanakönnun sem gerð var í Evergreen skólaumdæmi Washingtonfylkis, kom í ljós að af 695 kennurum sem höfðu fengið þjálfun í uppbyggingu sögðust 536 vera að reyna uppbyggingu með nemendum sínum. 

34. Er uppbygging ekki eins og allar aðrar agastjórnunarleiðir sem við höfum kynnst - hættir að virka þegar nýjabrumið hverfur? 

Við höfum ekki fundið þetta. Í rauninni hafa skólar skýrt frá því gagnstæða. Uppbygging sjálfsaga festir sig í sessi og verður öflugri með hverju ári og agavandamálum fækkar um leið og nemendur læra að leiðrétta mistök sín sjálfir. Grady Brown skólinn sem er í fararbroddi uppbyggingar, hefur komist í röð tíu bestu skóla í North Carolina (í námsárangri). Joe Frazier, skólastjóri Orchard skólans, segir að agabrotum hafi fækkað um 50% á fyrsta ári uppbyggingar. Teresa Rosen, aðstoðarskólastjóri í Richfield High School, segir að eftir þrjú ár með uppbyggingu styðji allir 70 starfsmenn skólans stefnuna. Judy Anderson segir að engin vandamál hafi komið upp í skólabílnum meðal 600 barna haustið 1996 - af sem áður var. 

35. Af hverju á umbun ekki rétt á sér? 

Ég hélt að hún væri betri en refsing. Þótt verðlaun og umbun séu sennilega ekki eins niðurlægjandi og refsing, geta langtímaáhrifin verið þau sömu. Hvort tveggja umbun og refsing kennir börnum að hlýða því sem aðrir gera þeim eða gera fyrir þau. Uppbygging kennir börnum að hegða sér í samræmi við hvað þeim finnst innst inni rétt að gera. Við viljum ekki að þau hegði sér af ótta við að vera gripin eða af því að einhver annar telji að þau hafi gert vel og vilji verðlauna þau. Ef barnið verður háð því að fá ytri styrkingu eða stýringu, hugsar það ekki um afleiðingar gerða sinna. Það hugsar þá ekki: „Hvernig maður er ég orðinn, ef ég geri þetta?“ En það er markmiðið með uppbyggingu að barnið læri að hugsa þannig. Það hugsar aðeins á þessa lund: „Hvað verður um mig ef ég geri það ekki?“ eða „Hvað fæ ég fyrir, ef ég geri þetta?“ Maður hangir í fortíðinni en horfir ekki fram á veginn. 3. hluti Reynsla kennara 

36. Getum við rekið nemendur úr tíma, ef við förum að nota uppbyggingu? 

Já, en ekki til að vísa út á guð og gaddinn. Tilgangurinn verður að losna við að þurfa að beita því úrræði. Sem sagt, við lítum á brottvikningu úr tíma þannig að þá gefist nemanda færi á að gera áætlun um að leiðrétta mistök sín. Viðkomandi nemandi lærir að skilgreina þarfir sínar og finnur út nýja og betri leið til að mæta þeim. Fyrsta spurningin sem nemandi fær eftir brottrekstur er þessi: „Hefur einhver kennt þér um grundvallarþarfir þínar?“ Ef ekki, er honum kennt það á staðnum. Nemandinn notar síðan þennan nýja skilning til að skilgreina vandann sem hann átti við að etja í bekknum, þarfir sínar, þarfir kennarans og hvernig þeir báðir geta fengið það sem þeir þarfnast í samskiptunum. 

37. Hafið þið nokkurn tímann „dauðan tíma“ (time out) þar sem nemendur bara sitja og bíða? 

Já. Í sumum skólum þar sem mikið er um ofbeldi og mikið um að nemendur brjóti grundvallarreglur, getur þurft að beita því sem þú kallar „dauðan tíma“. Það er best að hafa annan stað fyrir „dauðan tíma“ en þar sem áætlun er gerð og tryggja að aðrir nemendur komist ekki til að heimsækja þann sem þar situr og hugsar sitt ráð. Eftir að uppbyggingu hefur verið komið á verður ekki þörf fyrir - þetta fyrirkomulag. Nemendur ættu ekki að vera lengur í þessari stöðu en þar til einhver hefur talað við þá. Það er ekki gott að láta nemendur sitja lengi, því með „dauðum tíma“ erum við ekki að - byggja upp samband við nemandann. 

38. Getur einn kennari iðkað uppbyggingu sjálfsaga eða þarf allur skólinn að vera saman í því? 

Farsælt fólk stundar sífellt uppbyggingu. Hver og einn getur ástundað hana í vinnunni eða heima. Kennari getur unnið þannig með einum bekk, en bestur árangur næst ef starfslið skólans ræðir saman um lífsgildi sín og agastjórnun. Erfitt er að koma á uppbyggingu sjálfsaga í skóla ef skólastjórnendur styðja ekki hugmyndina. 

39. Við kennararnir erum að vinna að uppbyggingu, en skólastjórinn okkar er ekki áhugasamur um það. 

Ég legg til að þið spyrjið stjórnendur hvort þið kennararnir megið fjalla um lífsgildi ykkar í sameiningu, móta síðan lífsgildin í orð eða setningar og velja þau lífsgildi sem ykkur finnst mikilvægt að leggja áherslu á í starfi skólans. Byrjað er á gildum hvers og eins í fjölskyldum (sjá verkefni í bæklingnum Sáttmálar um samskipti, - bls. 17). Samræðurnar sem fylgja í kjölfarið mynda grunn að því að sjálfsagi ríki í skólanum. Meginspurningin sem svara þarf er þessi: ,,Teljum við að við séum ábyrg fyrir hegðun nemenda eða viljum við að nemendur læri að bera ábyrgð á eigin hegðun?“ 

40. Hvað á að gera við þá nemendur sem sí og æ brjóta skólareglurnar? 

Þeir samþykkja að bæta sig, en halda uppteknum hætti. Það eru nokkur atriði sem þarf að athuga: 

1. Hafa nemendurnir tekið þátt í að móta bekkjarsamning. Hafa þeir í rauninni farið yfir það hvað virðing er; hvað sjáum við, hvað heyrum við, hvernig líður okkur þar sem virðing ríkir, á ganginum, í matstofunni, á leikvellinum o.s.frv.? 

2. Höfum við tengt uppbyggingarvinnuna við sjálfsuppbyggingu nemandans með því að spyrja sem svo: „Ef þú bætir úr, lagar og leiðréttir það sem gerðist, hvað segir það þá um þig sem persónu og manneskju?“ Einnig mætti segja: ,,Að hvaða leyti verður þú meiri maður ef þú leysir þetta vandamál sjálfur?“ 

3. Er barnið að kanna hvað það kemst langt með okkur? 

Ef það er niðurstaðan, hefur skólastjórinn þá rætt við það í alvöru um lífsgildi skólans og hvað það er sem við teljum algjörlega óásættanlega hegðun? Ég held að ef þessi vandi er algengur í skólanum og þið teljið ykkur vera að nota uppbyggingarhugmyndir þá séu þær notaðar eins og hugmyndir um atferlismótun, eins og um umbun og refsingu sé að ræða. Endurtekin agabrot eru mjög algeng þegar ytri agastýring hefur verið ofnotuð. Krakkarnir segja bara: ,,Komdu með áætlun, ég skal skrifa undir.“ Þeir gera þetta til að - losna frá okkur. Sjaldnast hugsa þeir nægilega til að breyta viðhorfi sínu til skólans og kennaranna. 

41. Hve oft eigum við að fara í uppbyggingu með nemanda? 

Eins oft og nauðsynlegt er. En spurðu samt sjálfan þig áður en þú heldur áfram: Hvaða kennari eða starfsmaður skólans hefur getað myndað samband við nemandann? Getur nemandinn mætt þörf sinni fyrir umhyggju, áhrif, ánægju og frelsi án þess að láta illa? Hefur einhver, kannski annar nemandi, rætt við hann um lífsgildi okkar í skólanum? 

42. Hvað ef foreldrar vilja borga fyrir yfirsjónir barnsins? 

Já, það er í lagi ef einnig er áætlað að barnið leggi eitthvað af mörkum. Ef barnið gerir ekkert til að leysa vanda sinn, eru foreldrarnir að ýta undir veikleika þess, ekki ábyrgðarkennd. Það getur líka komið í veg fyrir að barnið læri að byggja sig upp, ef það fær ekki tækifæri til að taka þátt í lausninni. 

43. Þau leiðrétta mistök sín en með „merkissvip“. 

Þegar þetta gerist, segið þá við nemandann: „Það er mikilvægara með hvaða hugarfari þú lagfærir mistök þín, heldur en á hvern hátt þú gerir það. Hvað ætlar þú að segja? „Gamli skarfurinn fékk mig til að gera það?“ Eða: „Af hverju er ég svona vitlaus?“ Eða: „Það er í lagi að mér mistakist, ég get leiðrétt mistök mín og lært af þeim?“ „Hvað heldur þú að ég vilji að þú sért að hugsa?“ „Af hverju?“ Hvernig barninu líður við að vera í uppbyggingu segir okkur hvort það sé að læra og styrkjast. Ef það er reitt eða skömmustulegt, virkar uppbyggingin ekki. 

44. Ég er að kenna krökkum sem telja að það að styrkjast þýði að verða illskeyttari og hörkulegri. Hvernig myndir þú taka á slíku? 

Þetta bendir til alvarlegs vanda sem yfirgangssamir og ofbeldisfullir nemendur eiga við að stríða. Ég hef líka orðið að horfast í augu við þetta hjá karlmönnum í fangelsum. Þeir geta ekki ímyndað sér að maður geti bæði verið sterkur og umhyggjusamur. Þeir hafa aldrei séð slíkar fyrirmyndir. Lausnin er að sýna að þetta geti farið saman, skapa myndina með þeim. Við þurfum að fá fleiri karlmenn til kennslu í barnaskólunum. Við þurfum að fá áhrifamikla karlmenn úr samfélaginu til að koma og hitta strákana okkar og leiðbeina þeim. Þar sem við höfum sjálfstæðan vilja og stjórnumst af innri áhuga, þurfa drengirnir að eignast fyrirmyndir til að geta séð það fyrir sér á nýjan hátt, hvernig karlmenn geta verið. Annars halda þeir áfram að miða sig við ofbeldisfullar hetjur úr kvikmyndum og sjónvarpi. 

45. Krakkarnir kjósa sér uppbyggingu sem er niðurlægjandi fyrir þá. 

Ég er ósátt við þetta. Þetta er vegna þess að við höfum vanið þá á að hugsa eins og atferlissinnar. Þeir eru vanastir því að verða fyrir óþægindum þegar þeir gera mistök og verður eitthvað á. Þetta er það eina sem þeim getur dottið í hug því þeir þekkja ekkert annað. Spurðu barn sem velur sér þannig uppbyggingu hvað það læri á slíku og hvernig sú ráðstöfun efli það sem manneskju. Segðu: „Ef þetta sem þú velur þér að gera, gerir þig ekki hugprúðari og betri manneskju, þá er það ekki uppbygging. Ef það hjálpar þér ekki til að vera stoltur af sjálfum þér, þá er það ekki uppbygging.“ 

46. Barn vill uppbyggingu og bæta fyrir brot sitt en þolandinn hafnar því. 

Bentu barninu á að spyrja þann sem varð fyrir barðinu á því: „Er eitthvað annað sem ég get gert fyrir þig í staðinn, til að laga það sem aflaga fór?“ Ef þolandinn neitar enn, getur þú sem fullorðin manneskja sagt: „Þú hefur rétt á því að vera sár, en heldur þú að með því að refsa sért þú nær því að vera sá sem þú vilt vera? Hugsaðu um það. Vilt þú fá hjálp við að leiðrétta mistök þín?“ 

47. Ef þolandinn neitar enn, hvað geri ég þá? 

Sára og svekkta barnið hefur rétt á að neita áfram. Ef það gerist, segðu þá eftirfarandi við barnið sem vill fá að leiðrétta mistök sín: „Varst þú að reyna uppbyggingu?“ (Já) „Hefðir þú látið hana fá einhverjar sárabætur, ef hún hefði viljað það?“ (Já) „Fyrst þannig er, þá ertu að byggja þig upp og það hefur áhrif í kringum þig þó hún vilji ekki þiggja neitt af þér í sárabætur. Varstu að bjóða þetta til að vera sú sem þú vilt vera? Hvað segir það um þig? Hvað hefur þú lært af þessu atviki? Hvernig heldurðu að þú bregðist við í næsta skipti?“ Það er mikilvægt að uppbygging sé ekki bundin við að þolandinn fái skaða- eða sárabætur. Það gefur honum of mikið vald til að ná sér niðri á gerandanum, - beita refsingu. 

48. Ég hef foreldra sem segja: „Sparið vöndinn og þá spillið þið barninu.“ Hvernig get ég hjálpað þeim að skilja uppbyggingu? 

Spurðu foreldrana: „Ef barnið ykkar gæti lært að hegða sér vel án þess að finna til, mynduð þið samt sem áður telja nauðsynlegt að það finndi sársauka?“ Þau munu þá væntanlega segja: „Það er ómögulegt, barnið lætur sér ekki segjast án þvingunar.“ Spurðu þá á nýjan leik og segðu: „Þið álítið að það sé þannig, en ef til væri önnur leið til að hjálpa barninu sem kostaði ekki sársauka, munduð þið fara hana?“ 

49. Hvernig fannst þú uppbyggingarleiðina? 

Fyrst fékk ég hugmyndina með því að fylgjast með því hvernig innfæddir öldungar unnu með ungum vandræðaunglingum í Saskatchewan. Grundvallarsetningin um að „öll hegðun hafi tilgang”, og kemur frá kenningunni um sjálfsstjórn mannsins. Sú setning hjálpaði mér líka að komast á þetta spor. 

50. Ég er gæslumaður á leikvelli skólans. Ég er orðinn dauðleiður á því að heyra krakkana segja „fyrirgefðu“ og telja sig þar með sloppin út úr vandræðunum. 

Að segja „fyrirgefðu“ er ekki uppbygging. Það skapar engan innri styrk að segja fyrirgefðu, maður vex ekkert af því. Barnið er einungis að segja það sem það heldur að við viljum heyra, til þess að óþægindin hverfi. Segðu við barnið: „Þú hefur allan rétt á að biðjast fyrirgefningar, en hvað langar þig að gera til lagfæringar svo að þetta komi ekki fyrir aftur? Segðu mér hvað þú vilt gera.“ 

51. Ég er námsráðgjafi. Krakkarnir láta illa í tímum til að geta komist í viðtal til mín. Hvað get ég gert?

 Breyttu um stefnu í ráðgjöfinni. Segðu við barnið: „Það er ekki gott að ég sé alltaf að hitta þig þegar eitthvað er að. Á morgun vil ég fá þig í heimsókn þegar eitthvað gengur vel. Við erum búin að gera fullt af áætlunum. Komdu og segðu mér frá einni sem virkar vel.“ Kannski kemur barnið næsta dag til að prófa þig með því að koma með nýtt vandamál. Segðu þá við það: „Við erum búin að gera margar áætlanir, hugsaðu um það sem ég bað þig um í gær. Komdu aftur þegar þú hefur fundið út úr þessu.“ Það er ekki gott þegar barnið nýtur þess betur að vera á skrifstofu skólastjóra eða námsráðgjafa en að vera í skólastofunni. Barnið lærir þá að mæta þörf sinni fyrir umhyggju með því að láta illa. 

52. Nemendurnir eru orðnir hundleiðir á orðinu uppbygging. 

Orsökin gæti verið sú að kennarar nota uppbyggingu eins og viðurlög við brotum. Ef við tölum höstuglega, gerum lítið úr nemendum eða komum inn sektarkennd hjá þeim, virkar uppbygging ekki. Munið því að orðin sjálf flytja aðeins 10% skilaboðanna, hljómfallið 35% og svipbrigði og líkamstjáning meira en helming, eða 55% . 

53. Hvernig getur uppbygging hjálpað nemanda sem hefur aldrei fengið annað en refsingar og tekur núorðið bara við sér, sé honum refsað? 

Sumir foreldrar hafa alið börn sín upp við skammir og annað harðræði. Nemandi sem hefur fengið slíkt uppeldi tekur ekkert mark á kennurum fyrr en þeir beita röddinni. Í því tilviki þarf kennarinn að vera við því búinn að tala hátt, sérstaklega ef það þarf að þagga niður hávaða. Segið: „Hættu - þessu!“ og dragið ekki af ykkur. Þetta dregur að sér athygli, en mestu skiptir það, sem þið segið þar á eftir. Talið af ró og festu. Ef þið haldið áfram að hrópa, gefur það til kynna að þið séuð ekki í jafnvægi. Sjálfsmat kennarans virkar líka vel hér. 

54. Hvað áttu við með sjálfsmat? 

Kennarinn talar um sjálfan sig og hegðun sína fremur en að meta hegðun nemandans. Í stað þess að segja: „Þú hlustar aldrei á það sem sagt er við þig!“, segir kennarinn: „Ég get ekki liðið þetta“, eða „ég get ekki gert það sem ég á að gera og látið þetta afskiptalaust.“ Síðan reynir hann að finna eitthvað sem hann hefði getað gert betur, svo hann geti átt þátt í lausninni. Til dæmis kynni ég að segja sem svo: „Ég á sök á því að hafa gefið þér of marga valmöguleika.“ Síðan myndi ég koma með tillögu að lausn: „Ég get skrifað niður lista sem gefur þér tvo valmöguleika um verkefni.“ Síðan spyr ég: „Hvað leggur þú til?“ Ef nemandinn leggur til að honum verði refsað segi ég: „Ég hef ekki áhuga á því. Ég hef áhuga á að koma þessu í lag.“ Ég gæti jafnvel sagt: „Það er meiðandi, við höfum ekki trú á slíku í skólanum okkar.“ 

55. Hvað finnst þér um það að allur bekkurinn fái að kenna á því ef einn eða tveir nemendur í hópnum brjóta af sér? 

Það er tvennt sem mælir á móti því. Í fyrsta lagi eru viðurlög af því tagi ekki uppbygging. Þá eru nemendurnir að hegða sér vel til að forðast afleiðingarnar af slæmri hegðun, en ekki vegna eigin sjálfsvirðingar. Í öðru lagi, ef öllum bekknum er stjórnað þannig að allur hópurinn tekur út viðurlög vegna fárra, skapar það óheilbrigðan hópþrýsting á einstaklinga. Ýtt er undir þá hugmynd að það sé í lagi að hópurinn megi kúga einstaklingana. 

56. Hvernig hjálpar uppbygging seinfærum nemendum? 

Sumir nemendur eru ekki tilbúnir fyrir uppbyggingu og þurfa að finna fyrir reglum og viðurlögum. Þetta eru oftast þeir nemendur sem gera sér ekki grein fyrir orsök og afleiðingu, eru blindir á afleiðingar eigin hegðunar. Þetta getur stafað af því að þeir hafa fengið misvísandi skilaboð í uppeldinu, foreldrarnir hafi verið ósamkvæmir sjálfum sér. Samt bregðast margir vel við uppbyggingu þó þeim hafi oft verið hótað eða þeir verið keyptir til hlutanna. Ástæðan er sú að uppbyggingin einbeitir sér að lífsgildum nemenda. Allir hafa sömu þörf fyrir ást og umhyggju, áhrifavald, ánægju og frelsi, hvernig svo sem greindarfar þeirra er. 

57. Mig langar að nota uppbyggingu í starfi mínu sem kennari, en það tekur svo mikinn tíma frá kennslunni. Hvað get ég gert?

 Ég býst við að það sé hjálp í því að gera sér skýra grein fyrir muninum á stjórnun samkvæmt reglum (fjórða leið) og stjórnun samkvæmt uppbyggingu (fimmta leið). Fjórða leið tekur tvær mínútur af einbeitingu í senn. Þú getur sparað þér að nota þær mínútur og haldið athygli þinni á öðrum í bekknum með því að spyrja mildilega: „Hvert er þitt hlutverk? Hvað átt þú að vera að gera? Hvar á þetta heima sem þú ert að gera? Hvað vorum við sammála um?“ Þetta skapar nemendum skilyrði til að snúa sér sjálfviljugir aftur að verki. Gakktu í burtu þegar þeir hafa svarað, til að gefa þeim færi á samvinnu við þig. Ef þeir svara ekki spurningunni, svarar þú henni sjálf og segir svo: „Getur þú gert það?“ Það er ekki hægt að stjórna samkvæmt uppbyggingu á tveim mínútum. Það tekur að minnsta kosti tíu mínútur því rifja verður upp hvernig bekkjarsáttmálinn er og hver lífsgildi hópsins eru og viðkomandi nemanda. Nota þarf spurningar úr raunsæismeðferð uppbyggingarþríhornsins. Það auðveldar málið verulega ef þú hefur kennt bekknum uppbyggingu sem lífsleikni og gefið þér góðan tíma til þess. Bíddu með að nota nákvæma uppbygginu við agastjórn, þar til um er að ræða hegðunarfrávik þar sem lífsgildi eru grundvallaratriði. Auðvitað þarf að bregðast við ef um er að ræða óhlýðni og beina ögrun við stöðu þína sem kennara eða að öryggi er ógnað og þá þýðir ekki að nota uppbyggingu. Þetta eru oftast mál sem varða brot á grundvallaröryggisreglu og þá þarf að bregðast við þeim sem slíkum, en hægt er að fylgja málinu eftir með uppbyggingu síðar. 

58. Hvað gerir þú ef nemandi vill ekki taka við eða þiggja uppbyggingu? 

Ef þetta er alvarlegt atvik og nemandinn vill ekki lagfæra það sem aflaga fór, verðum við að færa okkur yfir í reglurnar og nota viðurlögin. Við þurfum að segja við nemandann: „Ég get ekki neytt þig til að lagfæra þetta og ég mun ekki beita fortölum eða hótunum. Samt get ég ekki bara sleppt - þessu. Þetta er of alvarlegt til þess. Ef þú vilt ekki bæta fyrir brot þitt verð ég að taka þig úr hópnum (bekk, matsal, leikvelli) og koma þér fyrir á öruggum stað.“ Spurðu síðan barnið: „Hefur þú lent í þessu áður?“ Oftast svarar barnið játandi. Spurðu þá: „Heldur þú að þú lærir á því að sitja eftir?“ Nú svarar barnið neitandi. „Af hverju skyldi ég þá vilja láta þig sitja eftir? Ég vildi miklu heldur hjálpa þér að leysa úr þessu, gera þig öruggari og koma þér aftur inn í félagahópinn.“ Oft hefur þessum nemendum verið refsað margsinnis og þeir eru þá búnir að taka skóla og kennara út úr óskaveröld sinni - strika okkur út. Ef við neyðumst til að láta þá sæta viðurlögum þarf að fá einhvern sem getur gefið sér tíma til að vinna traust þeirra á ný. 

59. Hvað ef nemandi neitar að viðurkenna mistök sín?- Lýgur eða afneitar. 

Ef nemandi lýgur er hann að fela sannleikann til að forðast skömm og refsingu. Hér hjálpar að hughreysta með því að segja: „Það er allt í lagi að mistakast, þú ert ekki sá eini sem hefur lent í þessu. Ég gerði eitthvað svipað þegar ég var á þínum aldri. Ég hef ekki áhuga á því hverju er um að - kenna, heldur að fá hlutina í lag.“ 

60. Því ættum við að meta misgjörðina eða spyrja nemanda um hvað væri það versta sem þau gætu gert? 

Að spyrja þessara spurninga leiðir til fyrsta stigs í sjálfsuppbyggingu. Barnið fer að átta sig á því að það valdi raunverulega sjálft og gerði sitt besta. Oft rífum við okkur niður og hugsum: „Ég hefði átt að gera betur.“ Með því að hugsa um það að við hefðum alltaf getað gert annað enn verra, sýnt öðrum enn meiri ósanngirni eða látið aðra troða enn meira á okkur, þá felur sú hugsun í sér lækningu. Og þannig er börnunum hjálpað til að átta sig á þessu. Sumir krakkar nota tækifærið og reyna að setja sig á háan hest og vilja gera langan lista af fáránlegum uppátækjum. Stöðvið þannig yfirlýsingar eftir tvær þær fyrstu eða svo og segið: „Við erum þá sammála um að þú hefðir getað gert annað verra, en spurningin er þessi: Getur þú gert betur? Viltu fá hjálp við það?“ Spyrjið aldrei spurningarinnar: „Gætir þú hafa gert annað verra?“ nema eftir  fylgi spurningin: „Getur þú gert betur?“

Efni tekið af heimasíðu Uppbygging.is:

Spurt-og-svarað-með-Diane-Gossen-algengar-spurningar-kennara-á-námskeiðum.pdf (uppbygging.is)


Ummæli